
Til að ná árangri og standa við loforðið er gott að skrifa það niður, skrifa niður hvað mig langar að gera, hvað ég vil eignast, hvert ég vil fara, því það er ég sem ákveð hvað framtíðin ber í skauti sér, ég tek ákvarðanir um hvert líf mitt stefnir. Út á það gengur markmiða-setningin, að taka stjórnina í sínu lífi, taka stefnuna þangað sem maður vill fara.
Það skiptir ekki máli hvaðan ég kem eða hvað ég hef gert hingað til. Það sem skiptir máli er hvað ég ætla að gera héðan í frá. Ég get ekki breytt því sem liðið er og ég vel að líta á það sem liðið er sem þroska og lærdóm, vel að læra af mistökunum og líta á þau sem uppbyggjandi þrep á þroskaleiðinni frekar en mistök eða eitthvað sem ég hefði ekki átt að gera eða gera öðruvísi. Að gera mistök er allt í lagi
og ég vel að líta á þau sem lærdómsferli. Það er ekkert að því að gera mistök, ég reyni bara að læra af þeim og ekki að gera þau aftur og aftur.
Þegar maður velur að breyta einhverju í lífi sínu eða fari sínu, borða minna, létta sig, hreyfa sig meira, taka til í fjármálunum þarf maður að taka á því. Maður þarf að stíga upp úr sófanum og fara út af öryggismottunni, út fyrir þægindasvæðið, upp úr drullupolli meðalmennskunnar. Það er ekki alltaf auðvelt, en það er ekki hægt að vænta árangurs án erfiðleika og sársauka. Til að ná árangri verðum við að taka áhættu. Til að ná fram þessum breytingum verðum við að setja okkur markmið, setja niður á blað hvað við ætlum að gera, hvernig við ætlum að breyta ástandinu, hvaða leið við ætlum að fara til að ná árangri, ná markmiðinu, standa við loforðið. Það þýðir ekkert að segjast endalaust ætla að reyna, reyna, reyna, reyna. Við verðum að gera hlutina, ganga í málið. Taka stjórnina í lífi okkar.
Ein leið til að standa við loforðið er að skrifa markmiðin sem við setjum okkur, skrifa loforðið á blað og gera áætlun um hvernig við ætlum að standa við það. Sannfæra okkur sjálf um að markmiðið sé þess virði að leggja erfiðið á sig. Sannfærast um að markmiðið sé það mikill hvati að við tökum staðfasta ákvörðun um að breytast, hætt að reyna – gera bara hlutina. Skrifa markmiðið hjá sér, vera einlægur og trúr sjálfum sér. Til að sem best takist er gott að fylgja þessum tíu skrefum:
- Þróaðu með þér ákafa til að gera eitthvað í þínum málum. Taktu svo staðfasta ákvörðun, hingað og ekki lengra, nú er komið nóg og nú breytirðu. Taktu staðfasta ákvörðun af þrá til að ná ákveðnu markmiði. Finndu bæði jákvæða og neikvæða hvata fyrir breytingunum og skrifa þá niður. Finndu ástæður fyrir því af hverju þú leggur af stað í ferðina.
- Þróaðu með þér sannfæringu, að þú trúir því sjálf að þú getir náð markmiðinu. Settu þér raunhæf markmið svo þú trúir því í hjarta þínu að þú komist alla leið, að þú náir markmiðinu.
- Kannski mikilvægasta skrefið – skrifaðu niður hvað þú ætlar að gera, hvernig þú ætlar að gera það, hvenær, af hverju og fyrir hvern. Skrifaðu niður markmiðin, skrifaðu niður hvaða árangri þú ætlar að ná. Ef þú skrifar þau ekki niður eru þau bara þrá, ósk, draumur. Því meiri tíma sem þú setur í að skrifa markmiðin niður og því meira sem þú vandar þig við orðavalið, því oftar sem þú lest markmiðin því sannfærðari verðurðu um að vinna að því að ná þeim. Ekki segja: ég ætla að reyna að gera þetta eða hitt eða mig langar að verða svona eða hinsegin, heldur: ég ætla að ná þessu markmiði með því að gera eitthvað á þessum degi, á þessum tíma í þetta langan tíma. Innri tjáskipti skipta máli, vera ákveðin og sannfæra sjálfa sig, trúa því að geta náð árangri.
- Þegar þú ert búin að ná markmiðinu þarftu að velta þér upp úr því hvernig þér líður og njóta þess að hafa náð markmiðinu, náð árangrinum og skrifa upplifunina niður. Skrifa niður jákvæða hluti sem það hefur í för með sér að ná markmiðinu. Tafir, hindranir og mistök eru
óumflýjanlegur þáttur þess að sigra sjálfan sig svo þú skalt ekki láta það afvegleiða þig. - Skilgreindu stöðu þína eins og hún er í dag. Vertu hreinskilin og heiðarleg við sjálfa þig. Ekki blekkja þig, vertu raunsæ og skynsöm. Ekki ýkja ástandið heldur, vertu heiðarlega og raunsæ.
- Bútaðu markmiðið niður í smærri einingar og tímasettu hvern hluta vel. Skipuleggðu þig. Ef þú nærð ekki markmiðinu þá endurskipuleggurðu og setur þér raunsærri tímamörk.
- Líklega besta skrefið. Gerðu lista yfir allar mögulegar hindranir sem þú getur komið að á leið þinni að markmiðinu. Gerðu lista yfir allt sem gæti fellt þig á leiðinni, vertu viðbúin því versta og taktu því sigrandi og undirbúin þegar þú kemur að því. Það tekur þrjár vikur fyrir daglega athöfn að verða að vana. Til dæmis að breyta svefnmynstrinu, gera hreyfingu að reglu, borða ekki eftir klukkan átta á kvöldin. Þessar þrjár vikur verða erfiðar og jafnvel sársaukafullar en þú kemst yfir það ef þú ert nógu áköf í að ná markmiðinu.
- Hvað ætlarðu að gera til að ná þessu markmiðið sem þú ert búin að setja þér? Veldu eitthvað sem þér þykir skemmtilegt, spennandi, áhugavert. Hvað er það sem þig langar að gera, þykir spennandi? Ekki velja eitthvað sem þér þykir leiðinlegt, eitthvað sem verður kvöð, sem er dæmt til að mistakast. Finndu þína eigin leið og farðu af stað með því hugarfari að gera eins vel og þú getur.
- Gerðu lista yfir alla sem gætu á einhvern hátt hjálpað þér eða veitt þér aðhald á leiðinni að markmiðinu og deildu markmiðinu með þeim. Það er hvetjandi að þurfa að standa sig gagnvart öðrum og þeir geta líka veitt stuðning og hvatningu.
- Gerðu þriggja vikna áætlun. Skrifaðu áætlun fyrir næstu þrjár vikur, hvað, hvernig , hvenær, með hverjum. Fyrstu þrjár vikurnar eru erfiðastar – eftir það verður þetta að venju.
Sjálfsagi verður auðvitað að fylgja með í þessari ferð, það kostar sjálfsaga að halda sér við efnið þegar andrúmsloftið sem markmiðin voru sett í varir ekki lengur. Þú þarft að veita þér aðhald, minna þig stöðugt á, skoða markmiðin á hverjum degi og fylgja þeim eftir. Markmiðin eiga að þjóna þér, eiga ekki að vera annað en það sem þig langar af allri hjartans þrá að gera. Ef markmiðin hætta að þjóna þér eða það gengur erfiðlega að ná þeim skaltu endurskoða þau og finna aðrar leiðir til að ná þeim. Um leið og markmiðin fara að vera kvöð skaltu endurskoða þau og vita hvort ekki sé hægt að fara aðra leið í stað þess að gefast upp. Því að gefast upp verður líka að vana.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli