26 desember 2009

Jólabrúðkaup

Þegar ég heyrði að móðursystir mín væri að fara að gifta sig varð ég ósköp glöð og spennt fyrir hennar hönd. Þegar ég heyrði hvaða dag hún hafði valið til atburðarins varð ég minna glöð og spennt. Hún valdi nefnilega mesta letidag ársins, sem að mínu áliti ætti að vera lögbundinn náttfatadagur, jafnt og Nýársdagur er lögbundinn fánadagur - já, hún valdi annan dag jóla.

Ég var að koma heim úr veislunni. Þetta var ósköp afslappað og óhefðbundið og yndislegt brúðkaup. Um fimmtíu gestir, frá 2ja ára uppí 82ja ára. Kalkúni og heimareykt hangikjöt með tilbehör og ís-brúðkaups-terta og heimagerðar sörur. Limrur og ýmis skáldskapur annar, ræður, myndir, söngur, glens og gaman.

Meðal margra annarra laga sungum við Vísur um vatnið, texta eftir Einar Steinþórsson við lagið Ísland er land þitt. Þær eru hér.

Íslenska vatnið frá öræfum streymir,
Íslenska vatnið í jöklunum býr,
Íslenska vatnið í æðum þú geymir,
Íslenska vatnið sem hverflunum snýr,
Íslenska vatnið, það orkuna gefur,
Íslenska vatnið er þjóðinni hnoss.
Íslenska vatnið, já, aldrei það sefur,
Íslenska vatnið sér breytir í foss.

Íslenska vatnið í úthafið rennur,
Íslenska vatnið er svalandi lind.
Íslenska vatnið er afl þegar brennur
Íslenska vatnið er spegill, þín mynd.
Íslenska vatnið er örlátt við gróður,
Íslenska vatnið er laxinum slóð.
Íslenska vatnið er ótæmdur sjóður,
Íslenska vatnið er kært vorri þjóð!

es.myndin er af Goðafossi.

Engin ummæli: