19 september 2009

Matarkarfan

Svo virðist sem það sé kreppa á Íslandinu góða. Í það minnsta eru sagðar fréttir af því í dagblöðum og sjónvarpi að fólk hafi minni pening milli handa og þurfi að taka upp ýmis sparnaðarráð sem næsta kynslóð á undan okkar notaði. Mér finnst reyndar bara fallegt hvað konur hafa tekið upp á því að prjóna meira og nú síðast í morgun las ég frétt þess efnis að ekki sé bara um aukinn prjónaskap að ræða heldur sé mikið að gera í verslunum á borð við Virku og Vogue þar sem sala á efnum hafi aukist mjög og nýtni hafi greinilega hafið innreið sína á heimilin í landinu því bætur seljast eins og heitar lummur - nú á að rympa í, stoppa í, setja bætur, laga og hressa uppá notaðar flíkur frekar en henda þeim og kaupa nýjar. Ég segi það, ýmislegt gott getur komið út úr þessum fjárhagserfiðleikum okkar líka, þetta er ekki bara böl og sorg.

Eitt af því sem skotið hefur upp kollinum og er mjög gott hjálpartæki hinnar hagsýnu húsmóður er heimasíðan matarkarfan.is. Þar er að finna tilboð í öllum helstu matvöruverslunum á einum stað. Nú er bara að taka upp á því að nýta föstudagskvöldin við að gera matseðil fyrir vikuna og innkaupalista í samræmi við hann, skella sér á matarkarfan.is og finna út hvar sé hagkvæmast að versla og fara svo í búð á laugardegi, eftir morgunmat. Munum bara að fara ekki svangar í búðina og fara eftir innkaupalistanum!

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Já, þetta er málið Alla mín. Ég er svo lélegur bloggari en ætlaði alltaf að blogga undir Ósk hag"sína" um ráðgjöf til að hámarka nýtingu þann penings sem maður hefur á milli handanna. Aldrei að vita hvenær ég kem mér í það.
Knús, Ósk