Ég sótti um í Launavernd Landsbankans í haust. Ég bjóst ekki við að fá inngöngu því ég er með ólæknandi taugahrörnunarsjúkdóm og er metin 75% öryrki hjá Tryggingastofnun ríkisins.
Launavernd er sko sjúkdóma-, örorku- og líftrygging. Það er nauðsynlegt að vera vel tryggður, án þess að ég hafi nokkuð við líftryggingu að gera - verandi einhleyp og barnlaus - en ég vil vera sjúkdómatryggð því það er aldrei að vita nema ég fái krabbamein eða hjartaáfall, alzheimer eða missi útlim.
Umsóknin var undirrituð og send inn einhvertíma í nóvember minnir mig. Ég fékk bréf frá TM í gær þar sem þeir sögðu mér frá niðurstöðum sínum eftir miklar vangaveltur um umsóknina mína.
Umsókn um sjúkdóma- og örorkutryggingu var synjað - hver átti von á öðru?
Umsókn um líftryggingu var samþykkt - með 175% álagi á iðgjaldið.
Ég er að semja bréf til tryggingafélagsins þar sem ég fer fram á rökstuðning með hvoru tveggja.
~~~
Hver man ekki eftir snilldinni Narcotic með Liquido?
Góðar stundir
2 ummæli:
Mundi ekki eftir laginu fyrr en ég hlustaði á það, er ekki sú besta í svona nöfnum:)
Knús, Ósk
Mæli með að þú skrifir grein og reynir að fá hana birta eða bara tala við Kompás t.d. Það er mikilvægt að vekja athygli á þeirri mismunun sem þetta er. Hvað eru miklar líkur að sami aðilinn fái marga sjúkdóma! Afhverju má manneskja með MS ekki tryggja sig við öðrum sjúkdómum. Þrátt fyrir þann sjúkdóm þá ertu bæði frábær og mikilvægur þátttakandi á vinnumarkaði :O) Til eru margir sjúkdómar sem geta kippt fólki strax út, afhverju máttu ekki tryggja þig fyrir þeim?
Þú ert tilvalin talsmanneskja fyrir málum líkt og þessu. Greind, vel að máli farin, vel skrifandi, sannfærandi og margt fleira.
Kveðja
Edda Kamilla
Skrifa ummæli