28 desember 2010

Nú árið er liðið ...

... eða allt að því. Kominn tími á andlitslyftingu og uppfærslur á heimasíðum barnanna, það fjölgar og fjölgar í hópnum og er það vel!

Senn líður að áramótum og þá er mannasiður góður og gegn að fara yfir farinn veg og rifja upp liðna atburði, leiðinlegasta og skemmtilegasta. Við í fjölskyldunni minni leikum þann leik alltaf yfir borðum á gamlárskvöld og förum yfir það sem okkur þótti leiðinlegast á árinu og hvað var skemmtilegast. Um það skapast yfirleitt fjörugar umræður og hávær hlátrasköll berast langt út á götu. Það sem mér þykir best við þennan leik er hvað það verður augljóst að þetta leiðilega sem maður lendir í gleymist fljótt en allt það skemmtilega sem hefur gerst á árinu lifir í minningunni og vekur gleði og samkennd í hópnum.

Ég veit ekki alveg hvernig það verður þetta árið því nú eru liðin tíu ár frá því pabbi minn dó. Mér þykir reyndar líklegt að við rifjum upp skemmtilegar sögur af honum og tölum um hvað hann var góður pabbi og hlýr og umhyggjusamur. Það er nefnilega þannig að fyrir margt er að þakka og margs er að minnast. Það má jafnvel þakka fyrir við söknum hans því það merkir að hann var okkur mikilvægur og skipti okkur máli. Það væri fátæklegt að hafa einskis að minnast og einskis að sakna.

Það er nú þannig að ég er ekki mikið partýdýr á gamlárskvöld, hef aldrei verið það (utan hins frábæra (og minnistæða) partýs á Grettisgötunni hér um árið!). Við erum meira í því að vera saman fjölskyldan og njóta þess. Við borðum góðan mat, drekkum góðan drykk, hlægjum og grínumst, fíflumst og höfum gaman. Við kaupum nokkur stjörnuljós af björgunarsveit (nema Maggi frændi, Steinar Páll og Steinn Vignir, þeir kaupa eitthvað fleira og stærra og dýrarar - en af björgunarsveit þó, vona ég) og fögnum nýju ári og bjóðum það velkomið, kyssumst og föðmumst og þökkum fyrir hvert annað ...

... svona eins og ég kyssi og faðma sveinsínurnar mínar og þakka fyrir þær og allar dásamlegu samverustundirnar, samtölin, grát og hlátur, gleði og sorgir, vonbrigði og árangur sem við eigum saman. Þess vegna vona ég að þið komið í leiðinlegast og skemmtilegast með mér. Ég skal byrja ...

8 ummæli:

Alla sagði...

Já hvers er að minnast og hvað er það þá sem helst skal í minningum geyma? Mér þótti leiðinlegast að missa Sr.Sigurð fóstra hans pabba míns nú í lok nóvember.
En það er svo margt sem átti sér stað hjá okkur sveinsínum á þessu ári að ég veit ekki hvar skal bera niður. Mér þótti skemmtilegast þegar Benni leysti niður um sig og sýndi á sér hvítar kinnarnar þar sem þeir félagar tóku fram úr okkur í Vatnsskarðinu (við vorum ekki komnar lengra en þangað var það nokkuð?). Kannski er þessi minning ekki gild því við vorum bara fjórar á ferð, ég, Inga, Kristín og Halla.
En þá fannst mér skemmtilegast þegar við vorum í Hawaii-partýinu hjá Kristínu í maí, það var dásalegt! Kannski ég skelli inn straubrettamynd úr því boði strax á nýju ári ef við verðum eitthvað leiðar í janúar :)
Skál!

Nafnlaus sagði...

Skemmtilegast:
Kynnast honum Ella mínum
Akureyrarferðin í heild sinni
Hawaiipartýið hjá Kristínu
Þorrablótið á Hellu m.m.
Svíþjóðarferðin í vor
Öll ferðalögin í sumar
Hestaferðin um Rangárþingið í ágúst
Afmælið hans Ella
Sjá hvað Sveinsínu barnahópurinn dafnar vel

Leiðinlegast:
Kveðja gamla ættingja og nágranna
Veikindi hjá vinum og ættingjum
Eldgosið í Eyjafjallajökli (rosa flott, en samt slæmt)
Hestapestin
Ástandið í þjóðfélaginu

Gleðilegt nýár Sveinsínur og takk fyrir það gamla

Kv. Bjalla

Nafnlaus sagði...

Skemmtilegast
Klárlega að prófa að eignast svona eitt stykki barn, með því skemmtilegra sem ég hef gert.

Leiðinlegast
Að sjá á eftir þeim sem manni þykir vænt um. Jónu á móti sem alltaf hefur verið stór hluti af jólahaldinu er sárt saknað á þessum tíma.

Að vera svona bundin heima í "óléttuvandamálum" og þar af leiðandi missa af samveru með ykkur vinkonum mínum. Ég mun standa mig betur á nýju ári ;)

kv. Janus

Nafnlaus sagði...

..og ég gleymdi...

Flott andlitslyfting á sveinsínu síðunni Alla!

Nafnlaus sagði...

Skemmtilegast:
Árið almennt hefur verið mér gott og auðvitað standa allar samverustundirnar við soninn upp úr en hann hefur verið á skemmtilegum aldri þetta ár og það hefur mikið verið að gerast hjá honum.
Annars af þeim almennum viðburðum, sem ég man, standa upp úr:
Akureyrarferð okkar í vor
Ferðalag mitt, Ásgeirs, Öllu og Kristínar norður í sumar.
Allir Sveinsínuhittingar ársins.
Velgengni mín í vinnu.
Verslunarmannahelgin á Hellu og þorrablótið þar og í sveitinni.
Að Halla skuli hafa náð sér í svona skemmtilegan karl.
Öll þau börn sem hafa fæðst hjá vinum og ættingjum.
Að hafa ákveðið að klára mastersritgerðina á komandi ári.
Allar kosningarnar sem gáfu tilverunni krydd.
Hawaii partí.

Leiðinlegast:
Oft á tíðum leiðinlegur mórall á vinnustað og leiðinlegt viðhorf almennings til vinnustaðar.
Veikindi og skilnaðir hjá ættingjum og vinum.
Stjórnmálin í landinu, náttúruhamfarir og dauðaslys.
Að hafa ekki komist til útlanda.
Versnandi fjárhagsstaða.
Að vera jafn feit og í jafn slæmu formi og í lok síðasta árs, það skal tekið á því 2011.
Allir þeir dagar sem ég eyddi í að vera þunn.

...og örugglega margt, margt fleira.

kv. Ingveldur

Nafnlaus sagði...

Skemmtilegast

Augnaðgerðin mín - Þórður augnlæknir er klárlega maður ársins í mínu lífi :)
Ferðin mín til Danmerkur í sumar
Akureyrarferðin í apríl...það ætlar nú engann endi að taka
Akureyrarferðin með Ingu, Ásgeiri og Öllu í sumar
Akureyrarferðin með Siggu og Ástu- Hvað er ég alltaf að gera á Akrueyri?
Verslunarmannahelgin með Ljótum hálfvitum á Flúðum
Töðugjöld og þorrablót á Hellu
Leikhúsferðirnar mínar
Samverustundir með Sveinsínum partý, sumarbústaður og heimsóknir


Leiðinlegast:
Skilnaðurinn í febrúar
Að Ása og Daníel fluttu frá Íslandi
Efnahagsástandið og umræðan í þjóðfélaginu
Veikindi í fjölskyldunni
Þynnkudagarnir þegar veðrið var gott

Annars er ég svo þunn að ég man ekki meira..
Kveðja, Kristín Birna

Alla sagði...

Ha? Ertu ennþá þunn? Að byrja árið á tveggja daga þynnku er náttlega ávísun á frábært ár - mikla skemmtun og skemmtilegheit og skemmtanagildi og að vera skemmtileg og að skemmta sér og það er bara fallegt! Nei, djók, það er bara skemmtilegt!

Nafnlaus sagði...

Skemmtilegast:
-Að sjá litlu skvísuna mína þroskast og hlusta á pælingarnar hennar, gaman að rökræða við hana hitt og þetta.
-Að láta barna mig (hahaha...pent orðað ;o)
-Allir hittingar með Sveinsínum.
-Skemmtilegur félagsskapur á þorrablóti og töðugjöldum.
-Utanlandsferðin í haust, langþráð fjölskyldufrí.
-Að hafa prufað Bootcamp, á sko klárlega eftir að fara í það aftur.
-Að taka þátt í skemmtilegum kosningum í vor og sitja á listanum sem felldi íhaldsmeirihlutann hér í Rangárþingi ytra, fyrsta sinn sem það gerist síðan Hella byggðist.

Leiðinlegast:
-Askan í jarðveginum í sumar, ekki hægt að fara í almennilega göngutúra eða setjast í grasið eins og maður er nú vanur að gera á sumrin.
-Öskumistursdagar.
-Að hafa ekki komist á nógu marga Sveinsínuviðburði.
-Hækkandi bensínverð, leiðinda skattur fyrir þá sem búa úti á landi.

Hlakka annars til að sprella með ykkur á nýju ári - held að árið 2011 verði ótrúlega skemmtilegt.

Kveðja,
Margrét Harpa