12 desember 2009

Hjónabandið


Fleirum en mér finnst ótrúleg og undarleg græðgin sem hefur gripið föður og bróður Stiegs Larsons heitins. Hildur Helga Sigurðardóttir skrifar pistil um þetta efni í dag, reyndar í tengslum við höfundarrétt frekar en hjúskaparrétt, sem er það sem ég er að velta fyrir mér núna, svona á þessum síðustu skrefum próflesturs (alltaf að fresta!)

Oft hef ég haft orðaskipti við fólk um erfðarétt eftirlifandi maka. Þá í tengslum við það að vera eingöngu skráð í sambúð eða vera í hjónabandi. Einu sinni vann ég með konu sem var ekki gift og hún ætlaði sko ekki að gifta sig. Hún var í skráðri sambúð með sínum maka og það var nóg að hennar áliti. Þau voru með allt skráð til helminga, bílinn, húsið, golfsettið, örbylgjuofninn ... og þannig taldi hún sig vera fjárhaglsega örugga með sitt ef kallinn félli frá um aldur fram.

Það var alveg rétt skilið hjá henni að hún fengi helming eigna við fráfall, þannig er það þegar fólk er skráð í sambúð. En hlutirnir eru bara ekki svo einfaldir þegar kemur að erfðamálum. Þegar par skráir sig í sambúð skráir það eignir sínar saman, hann á helming, hún á helming. Ef parið eignast börn er það dásamleg guðs blessun. Ef svo óheppilega vill til að annað þeirra deyr fyrir aldur fram, börnin skiptast eignir þannig að hinn eftirlifandi fær sinn helming eignanna og börnin erfa helming þess látna.

Sama dæmi, nema hér er parið búið að gera hjúskaparsáttmála, ganga í hjónaband. Annar deyr um aldru fram. Sá sem eftir lifir fær sinn helming, sín 50% OG erfir svo maka sinn, fær helming af hans helming. Að endingu skiptist hinn helmingur þess sem hinn látni átti á milli barna ef einhver eru.

Ef við setjum þetta upp í tölum fær sá sem er einungis skráður í sambúð 5000 kr. af tíuþúsundkallinum en sá sem er í hjónabandi fær sinn 5000 kall og svo 2500 kall = 7500 kall.

Þetta eru hjúskaparlögin á Íslandi. Þessi ágæta samstarfskona mín var mjög æst yfir þessu því hún leit á það sem nauðsyn að hafa kirkjuathöfn til að ganga í hjónaband. Hún vildi með engu móti gifta sig í kirkju, trúði ekki á guð og fannst óþarfi að blanda honum í málið. Þar var einmitt hennar stóri misskilningur.

Hjúspakarsáttmálinn sem fólk gerir þegar það gengur í hjónaband, sama hvort það er gert hjá sýslumanni eða presti, er sá sami. Reyndin er bara sú að hér á Íslandi (og eingöngu á Íslandi, ef mér skjátlast ekki) hafa prestar þennan rétt til jafns við sýslumann, að gefa fólk saman í ljósi laganna. Þetta er arfur frá því við vorum undir Dönum og kóngurinn var að spara sér embættismennina og veitti prestum hér á Íslandi þennan rétt. Prestar annarsstaðar hafa hann fyrirleitt ekki. Í nánast öllum öðrum löndum þarftu að fara á báða staði ef þú vilt líka blessunarathöfn.

Það er bara svo oft sem fólk ruglar saman þessari fallegu, rómantísku hugmynd um blessun og vígslu í kirkju og veislu þar sem fagnað er og glaðst í hópi vina og ættingja og svo praktísku hliðinni á hjúskaparsáttmálanum sem kemur rómantíkinni lítið við, lagalega í það minnsta. Ruglar saman á þann veg að það heldur að það sé ekki hægt að hafa eitt án hins.

Ég mæli með því að vera líka svolítið praktísk þegar við hugsum um hjónabandið og teljum okkur ekki þurfa að gera þennan hjúskaparsáttmála. Ég legg til að við hugsum um erfðamál, réttindi og fjárhafslegt öryggi - því eins og Hildur Helga sagði, það veit enginn sína ævi fyrr en öll er - og ég tala af reynslu!

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Góður pistill hjá þér Alla mín.
Knús, Ósk