15 október 2009

Sinubruni og of hraður akstur

Í þéttbýliskjarna einum á Íslandi starfa nokkrir embættismenn. Má þar nefna sýslumann, lögreglustjóra, prest og slökkviliðsstjóra. Allir þessir embættismenn starfa hjá íslenska ríkinu og þeim ber sem slíkum að fara eftir ákveðnum lögum og reglum um framkomu og hegðun.

Það er nú samt svo að í þessum þéttbýliskjarna eru menn af gamla skólanum og á þeirri skoðun að best sé að viðhafa það sem maður lærði í æsku.

Sýslumaðurinn lærði á sínu æskuheimili að það er í lagi að kitla pinnann aðeins, sérstaklega ef maður er einn í bílnum á fáförnum vegi. Maður er svo sem ekki að skapa neinum hættu, bara sjálfum sér.

Lögreglustjórinn var vanur því þegar hann var pjakkur að pabbi hans kom stundum heim á bílnum eftir að hafa skoppið á næsta bæ að hitta fjallferðarfélagana svo honum þykir það eðlilegasti hlutur í heimi að keyra heim eftir fjörugt matarboð á föstudagskvöldi með veiðifélögunum þar sem vel er veitt, hvort eð er svo stutt heim, bara þremur götum neðar í hverfinu og maður fer ekki hratt.

Slökkviliðsstjórinn var að brenna sinu í sumarbústaðarlandinu hjá sér síðasta vor og það fór frekar illa. Honum fannst það samt í lagi því hann hafði alist upp við þetta.

Presturinn lagði í vana sinn að leita huggunar hjá unglingstúlkum. Það gaf honum svo mikinn styrk að faðma þær og kyssa. Í hans fjölskyldu er venja að faðma og kyssa þá sem manni þykir vænt um. Þar eru allir svo hlýir og alúðlegir hver við annan.

Svo lögreglustjórinn varð alveg óður þegar strákarnir á vaktinni stoppuðu hann á föstudagskvöldið og létu hann blása. Sýslumaðurinn var ekki par sáttur þegar hann fékk hraðasektina í póstinum ásamt myndinni úr vélinni í Göngunum. Verst var það þó fyrir prestinn að vera kærður fyrir kynferðislega áreitni.

2 ummæli:

Jökulnornin sagði...

Hvað fæ ég í verðlaun fyrir að vera fjórtánþúsundasti gesturinn?
Kv.Jökla

Gugga sagði...

14 þúsund kossa og knús.