16 febrúar 2009

Gaupur

Þetta er gaupa með kettlinginn sinn. Gaupur gjóta einu sinni á ári, að vori, og yfirleitt koma 2-6 kettlingar úr goti. Gaupur eru einfarar og því þurfa kven- og karldýrin að eiga leið um sömu slóðir um fengitímann og það hlýtur að vera soldið erfitt fyrir þau að hittast, að láta leiðir sínar skarast. En því er nú þannig farið með ketti að þeir eru ótrúlega þefnæmir og finna lyktina hver af öðrum úr hundruða metra fjarlægð.

Gaupur eru stóri kettir sem lifa á norðuslóðum á norðurhveli jarðar. Þess vegna hafa þær stórar og breiðar loppur sem auðvelda þeim að fara yfir snævi þakta jörð. Önnur einkenni gaupunar er stutt rófan og hárbrúskurinn á eyrum hennar. Evrópugaupan, sem er stærst hinna fjögurra gauputegunda, verður allt að 130 cm löng og um 70 sm há á herðakamb. Karldýrin geta orðið um 30 kíló en stelpurnar eru léttari, ólíkt því sem gerist hjá hvölum.

Gaupur eru náttverur og og einfarar eins og fyrr segir. Vegna þessa háttalags og þeirrar staðreyndar að dýrið gefur frá sér lág hljóð svo lítið heyrst til þess getur gaupa lifað óséð í langan tíma á afmörkuðu svæði í skógi eða fjalllendi þar sem hún kann best við sig. Menn verða varir návistar gaupunnar vegna spora í snjónum eða blóðslóðar og hræja sem hún skilur eftir sig, því þetta er rándýr.


Gaupur veiða helst snæhéra, mýs, fugla og kanínur en líka refi, dádýr og hreindýr. Þótt Gaupur séu einfarar í eðli sínu veiða þær stundum saman. Aðferðirnar eru kattlegar, þær sitja um bráðina, elta hana jafnvel marga kílómetra áður en þær læðast og laumast nær og að lokum stökkva á dýrið sem á að verða kvöldmaturinn.

2 ummæli:

Gugga sagði...

Veistu Alla....ég hef alveg lúmskt gaman að þessum fjölbreytta fróðleik.

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir alla skemmtilegu fróðleiksmolana Alla mín, þeir hitta sko í mark hjá mér.

kv. Halla