28 desember 2008

Egg til sölu – leg til leigu


Það er mikið algengara að karlar gefi sæði en konur gefi egg. Það er ekki skrítið þegar skoðað er hversu mikið meira mál það er að gefa egg en sæði. Karlinn þarf einfaldlega að runka sér í bolla og hann fær eins mikið af örvandi efni og hann þarf til að gera sitt. Svo fær hann borgað. Tekur kannski klukkutíma frá því hann leggur bílnum og þar til hann keyrir í burtu. Kona sem gefur egg þarf aftur á móti að fara í margra vikna meðferð. Fyrst þarf að slökkva á eggjastokkunum með hormónasprautum, svo þarf að kýla þá í gang aftur með enn fleiri sprautum og svo þarf konan að vera á sjúkrahúsinu í hálfan dag þegar sjálf eggheimtan fer fram. Og þið getið rétt ímyndað ykkur hvernig það er gert – frekar inngripsmikil aðgerð sem krefst deyfingar og læknis og hjúkrunarfræðings, jafnvel fleiri.

Karlar gefa sæði þegar þá vantar smá pening – konur gera það ekki nema að vel athuguðu máli og þá fyrir einhvern ákveðinn aðila, oft einhvern sem þær þekkja. Ég hef það á tilfinningunni að það fygli því einhvernvegin önnur tilfinning fyrir konu en karl að gefa kynfrumur sínar. Ég held það sé því það er körlum eðlislægt að dreifa sæði sínu sem víðast en það er þetta með „móðurtilfinninguna“, hreiðurgerðina, verndartilfinninguna sem fylgir konum og gerir þetta svolítið meira tilfinningamál fyrir konur. En hvað er það þá sem fær konur til að leigja líkamann sinn til að ganga með barn fyrir aðra?

Það eru til tvær gerðir af leigumæðrum. Þær sem lána líkama sinn til að ganga með barn annars pars sem leggur til báðar kynfrumurnar og þær sem skaffa eggfrumuna, fara í tæknifrjóvgun og ganga svo með barnið fyrir par sem tekur það með sér heim af fæðingardeildinni.

Ég hef verið að velta þessu með leigumæðurnar fyrir mér undanfarið. Þetta er bannað með lögum á Íslandi en kemur oft fyrir í amerískum þáttum og bíómyndum. Mér finnst að konur eigi að hafa það vald yfir líkama sínum að ganga með barn fyrir aðra ef þær kjósa að gera það, frjálsar og óháðar.

Ég gúgglaði þetta fyrirbæri í gær til að reyna að skilja hvað fær konu til að lána líkama sinn í 9 mánuði til að næra og vernda lítinn líkama sem vex inni í henni, stækkar, þroskast, byrjar að hreyfa sig, fæða nýjan einstakling inn í heiminn og afhenda hann svo öðrum til að hugsa um það sem eftir er. Ég skil hana mjög vel, þessa löngun til að hjálpa öðrum, en hvernig fer maður að því að mynda ekki tengsl við þetta barn sem maður ber undir belti? Hvernig fer maður að því að láta barnið af hendi þegar það er fætt? Er það ekkert mál ef maður er með augun á markmiðinu, ávallt minnugur þess að ekki er um manns eigið barn að ræða, alltaf meðvitaður um það að á endanum gefur maður barnið frá sér? Er munur á þessu eftir því hvort um er að ræða fyrstu meðgöngu eða ef maður á börn sjálfur? En hvernig fer maður þá að því að aftengja sig algerlega tilfinningaleg frá þessu lífi sem vex innra með manni? Hugsar maður um líkama sinn sem útungunarvél, hitakassa, petrískál?

Engin ummæli: