21 nóvember 2008

Mér kemur ekkert við hvernig útför minni verður háttað

Oft hef ég heyrt sögur af eldra fólki sem var búið að skipuleggja eigin jarðarför niður í hið minnsta smáatriði. Hver ætti að jarðsyngja, hvaða sálma skyldi syngja, inngöngu og útgönguspilið, blómin og líkmennina. Já, og hvort jarðað skyldi í kyrrþei eða fyrir opnum dyrum. Hver hefur ekki heyrt svona sögur?

Ég sat með nokkrum vinkonum í hádegismat í vikunni og við fórum að ræða jarðarfari því ein okkar er nýkomin heim frá Danmörku þar sem hún var að fylgja móðursystur sinni til grafar. Hún þurfti aðeina að tjá sig um þetta því venjurnar í Danmörku eru víst ólíkar því sem við erum vön hér á Íslandi. Þá fór ég að hugsa um þetta, jarðarfarir.

Hver á að ráða því hvernig jarðarför fari fram? Ég er þeirrar skoðunar að hinn látni hafi ekkert með þetta að segja, hann ráði þessu ekki - enda sé hann dauður (fyrirgefið orðbragðið). Fyrir hvern er jarðarförin annars? Er hún ekki fyrir hina eftirlifandi? Er hún ekki kveðjuathöfn fyrir ástvini, ættingja og aðra vandamenn og vini? Kemur hinum látna það eitthvað við hvort sungið sé Allt eins og blómstrið eina eða Gullvagninn? Er hann þarna til að hlusta? Eða hvort blómin séu pöntuð frá Garðheimum eða Sjafnarblómum, hvor notaðar séu liljur eða rósir?

Ég trúi því að útförin sé fyrir aðstandendur og þá sem elskuðu, dáðu og þótti vænt um hinn látna og þeim sé einmitt vel treystandi til að hafa athöfnina smekklega og fallega og í anda þess sem er farin til feðra sinna. Þess vegna sé réttast að hinn látni sé ekki að skipta sér af þessu, leyfi bara ástvinum sínum að hafa þetta eins og þeir telja fallegast og best til að minnast hans. Ég hef í það minnsta sagt mömmu að ef svo ólíklega vilji til að ég deyji á undan henni hafi hún fullt vald til að haga þessum málum eins og hún vilji, ég verði dauð hvort eð er.

es. og minningagreinar - þoli ekki þegar þær eru eins og sendibréf sem er skrifað til hins látna. Settu það í kistuna, ekki Moggann.

3 ummæli:

Gugga sagði...

Svo sammála. Þið Sveinsínur megið þess vegna koma upp á svið og syngja eitthvað í minni útför.

Nafnlaus sagði...

Já ekki ætla ég að skipta mér af hvernig minni för verður háttað. Það eina sem ég fer fram á er að vera brennd. Ingveldur

Tilvera okkar.... sagði...

Ég verð nú að segja að mér þykir þetta undarleg umræða en góðar vangaveltur. Ég er nú búin að koma því til minna nánustu að ef svo óheppilega vill til að ég hrökkvi upp af, skuli nota það sem hægt er í varahluti og hitt skuli jarðað :)

Ég hef líka beðið um það að minn uppáhaldssálmur Dag í senn verði sungin í blesspartýinu :)

Góðar stundir.