Ég vaknaði kl.07:18 við skruðninga og læti þegar herbergisfélagi minn rak sig í hækjurnar og hratt þeim í gólfið. Það slapp svo sem því vekjaraklukkan mín var stillt á 07:25. Ég dreif mig fram úr, klæddist og fór niður í morgunmat.
Við vorum fimm sem biðum fyrir utan tækjasalinn þegar stúlkan mætti til að opna kl.08:05. Ég sat í 12 mínútur á hjólinu (og hjólaði) til upphitunar og svo styrkjandi lóðalyftingar og teygjur í 30 mínútur. Mér til óvæntrar ánægju var enginn í gula sturtuklefanum svo ég hafði næði til að baða mig eftir átökin.
Slökun og streitustjórnun lauk kl.10:00 í morgun. Námskeiðið hefur verið mjög upplýsandi og fróðlegt. Ég hef til dæmis komist að því að sum slökunartónlist fer rosalega í taugarnar á mér – sérstaklega panpípur. Ég lærði líka að ég er frekar meira en minna ákveðin og verð að fara að taka frá tíma til að hvíla mig og slaka á.
Sem var nákvæmlega það sem ég gerði áður en ég mætti í vinnusmiðjuna kl.11:00 (meira að segja fimm mínútum fyrr því ég vil ekki að ein mínúta af tímanum í vinnusmiðjunni fari til spillis). Þegar ég var búin að sníða til bæði innra og ytra byrgði í frauðkúlustuðningspúðann minn tók ég til við saumavélina. Hún hökktir eitthvað þessa dagana en við getum ómögulega áttað okkur á því hver vandinn er. Ég bind vonir við að ná að klára púðann á morgun – á bara eftir að sauma saman innra byrgðið og fylla með frauðkúlum og sauma rennilásinn á ytra byrgðið. Ég verð með handverkssýningu þegar tími minn hér verður liðinn.
Kjúklingur með karrý og kókos – ummmmm! Eða það hélt ég. Hádegisverðurinn var gufusoðinn kjúklingur með húðinni og öllu, smá kókosmjólk og karrýdufti yfir – jukkkk! Ofnbakaða grænmetið var sætt og gott, gulrætur, sætar kartöflur, blóm- og spergilkál. Til að meltingin væri sem árangursríkust lagðist ég í hádegisslökun.
Rétt náði að hressa mig við eftir slökun til að mæta í hnit kl.13:00. Við vorum bara fjögur svo við spiluðum tvendarleik. Mikið var það gaman. Ég svitnaði eins og hóra í messu og leikfélagi minn gerði lítið annað en hrósa fótaburði mínum og hve flott sporin væru hjá mér. Hef það reyndar á tilfinningunni að hann hafi verið að gera góðlátlegt grín að flóðhestinum sem var í liðinu hans.
Helgi leiddi okkur í gegnum skóginn meðfram ánni í roki en þurru. Ég hafði fengið púlsmæli að láni hjá heilsuþjálfurunu eins og sjúkraþjálfarinn minn mælti með til að vita hvort Ganga II sé nægileg áskorun fyrir mig. Eftir 45 mínútna dill í hniti mældist slátturinn um 125 slög á mínútu í göngunni. Þegar við komum til baka um kl.14:25 var kominn kaffitími.
Þar með var stundataflan mín tæmd fyrir daginn nema ég átti eftir að setjast með hjúkrunarfræðingnum í klukkutíma til að fara yfir málin, svona í lok þriðju viku. Í næstu viku fer ég taugasálfræðilegt mat. Hef ekki hugmynd um hvernig það fer fram en tilgangurinn með því er að kanna hvort ég sé farin að tapa hugrænni og vitrænni færni – þið eruð sennilega bestar til að dæma um það ;o)
5 ummæli:
Æ en frábært, væri alveg til í að eyða þessum tíma með þér :)
Og frá mínum bæjardyrum hef ég ekki tekið eftir því að þú sért að tapa hugrænni né vitrænni færni, mér finnst alltaf jafn gott að tala við þig og þú ert alltaf svo góð að finna lausnir fyrir mig :)
Njóttu næstu viku, love jú beibí
kv. Janus
..eins og hóra í messu...hahaha..góður þessi. En nei held að þú sért sæmilega klár í kollinum ennþá. :)
Mér finnst einmitt eins og þú sért alltaf að auka hugræna og vitræna færni. Njóttu þess nú að slaka á og nota djúpvöðvana. Stingdu svo herðablöðunum í rassvasann og skemmtu þér í hniti. Hlakka svo til að sjá handverkið þitt í lok vistunar.
Flott prógramm. Hlakka til að mæta á handverkssýningu:) Mér finnst þú alltaf jafn "klikkuð" svo það hefur ekkert breyst held ég þarna í kollinum.....!! haha
knús og kossar,
Ósk
Þú ert og verður töffari Alla mín! Gott að heyra að þú plumar þig á Lundinum. Hafi einhverjar heilasellur tapast undanfarin ár, þá eru þær nú ekki fleiri en meðalmaðurinn tapar á einu góðu djammi.
kv. Halla
Skrifa ummæli