23 janúar 2008

Time is running out

Ég heiti Aðalheiður og ég er meðvirkill. Ég veit ekki hvort er verra, að vera fíkill eða meðvirkill. Sem meðvirkill á ég til dæmis erfitt með að gera mér grein fyrir því hvernig mér líður, ég á erfitt með að taka ákvarðanir, ég dæmi allt sem ég hugsa, segi og geri harðlega og finnst það aldrei nógu gott, ég tek álit annarra á hugsunum mínum, tilfinningum og hegðun fram yfir mitt eigið og ég er næm fyrir því hvernig öðrum líður og mér líður eins og þeim.

Eins og núna. Ég skrapp í moldvörpugrenið áðan að ná í nýja símtækið mitt. Ég stoppaði að sjálfsögðu til að spjalla við strákana. Eitthvað lá illa á einum þeirra og ég dró það í mig eins og þurr svampur drekkur í sig vatn. Mér fannst eins og ég ætti að reyna að hressa hann við, láta honum líða betur, vera bjargvætturinn. Ég var sem betur fer meðvituð um að það er ekki í mínum verkahring og reyndi að hemja mig. Eins stóð ég með sjálfri mér og leyfði honum ekki að taka eigin vanlíðan út á mér. Samt líður mér ömurlega þar sem ég sit hér og hugsa um þetta. Þar kemur meðvirknin til skjalanna - aftur.

Núna líður mér illa. Mér finnst ég ætti að hafa gert eitthvað til að láta honum líða betur. Ég nöldra í sjálfri mér fyrir að hafa ekki gert nóg. Ég skammast í mér fyrir að hafa gert of mikið. Ég ríf mig niður fyrir að nöldra í mér fyrir að finnast ég ekki hafa gert nóg og ég dæmi mig miskunnarlaust fyrir að skammast í mér fyrir að finnast ég hafa gert of mikið. Ég læt aðra manneskju stjórna því hvernig mér líður og ég get sko skammað mig fyrir það.

Fyrr má nú rota en dauðrota!

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Erfitt að setja comment við þessa færslu. Held ég vilji frekar spjalla bara næst þegar við hittumst.

Hafðu það gott krúsin mín,
Ósk