25 júní 2009

Um lúgu læðist bréf

Þegar ég var yngri vissi ég fátt meira spennandi en að fá bréf. Meira að segja yfirlit frá bankanum glöddu. Bara að fá umslag inn um lúguna merkt mér. Auðvitað var gleðin meiri og endingarbetri ef um var að ræða bréf, pakka eða póstkort frá vini eða ættingja - því verður ekki neitað.



Í dag er það eina sem ég fæ í póstkassann gluggapóstur. Enda er ég komin á fertugsaldur og hef ýmsar skuldbindingar að virða og bankinn er æstur í að minna mig á þær. Þau bréf sem gleðja koma ekki lengur inn um lúguna, heldur á rafrænu formi í tölvupóstkassann.

Orðið 'póstur' þekkja allir en það virðist vefjast fyrir mörgum að velja því rétta tölu þegar kemur að því að beygja það. Eitt og sér er orðið til í bæði eintölu og fleirtölu, póstur og póstar. Oft er orðið notað sem seinni hluti í samsettum orðum og þá fer það algerlega eftir merkingu samsetta orðsins hvort hægt sé að nota það bæði í eintölu og fleirtölu eða eingöngu í eintölu.

Póstur í merkingunni bréf, böggull, kort er óteljanlegt magn svo það er bara til í eintölu, líkt og mjólk. Þess vegna er talað um mikinn póst eða engan póst. Hið sama á við um mann sem dreifir pósti
- Var pósturinn búinn að koma í dag?
Hér getum við ekki talað um marga pósta, heldur verðum við að segja allir póstburðarmenn landsins eru í verkfalli, það gengur ekki að segja allir póstarnir eru í verkfalli. Ef við viljum tala um póstburðarmenn sem pósta í fleirtölu verðum við að nota Póstur sem síðari hluti samsetts orðs. Sem dæmi getum við talað um landpósta og mjólkurpósta.
- Landpóstar voru fáir á Íslandi í upphafi 18.aldar.

Orðið eitt og sér í fleirtölu, póstar, geta meðal annars verið spýtur í gluggum.
- Fallegir þverpóstar í þessum frönsku gluggum.
- Já, gluggapóstarnir í þessu húsi eru listilega útskornir.

Við getum hins vegar ekki talað um gluggapósta í merkingunni bréf sem inniheldur reikning. Þá verðum við að segja gluggapóstur. Og þá erum við komin að ástæðu þessara skrifa. Póstur í merkingunni bréf, böggull, pakki er ekki til í fleirtölu í íslensku máli. Þess vegna er rangt að tala um tölvupósta.
- Tölvupóstarnir sem Hannes og Karl hafa verið að senda sín á milli.
- Mín biðu fimmtán tölvupóstar þegar ég opnaði pósthólfið í morgun.

Aftur, póstur í merkingunni bréf er óteljanlegur svo það er ekki hægt að tala um hann í fleirtölu, hvort sem hann kemur inn um póstlúguna á hurðinni eða í pósthólfið í tölvunni.

Góðar stundir!
Málfarsnazistinn

1 ummæli:

Gugga sagði...

Mér finnst svo gaman að lesa pistla frá Málfarsnazistanum. Skal snarlega hætta að nota tölvupóst í fleirtölu.