Fimmtudagskvöld eru vinsæl saumaklúbbakvöld.
Síðasta fimmtudagskvöld hittust 6 konur á heimili einnar þeirra. Saklausar og einfaldar veitingar voru á boðstólnum, enda kreppa í þjóðfélaginu.
Þessar konur hafa ekki þekkst nema í 18 mánuði en eru mjög nánar. Þær eru hver annari ólíkari, aldursbilið breytt, háralitur fjölbreyttur, þyngd breytileg, hjúkskaparstaða og barnafjöldi mismunandi.
Þær hlógu mikið á fimmtudagskvöldið þessar konur. Umræðuefnið var, eins og venjulega þegar þær hittast, fjölbreytt en samt bar á góma mál sem þær höfðu aldrei talað um áður. Karlmenn, kærastar, stefnumót og fleira í þeim dúr. Þær hlógu mikið og dátt yfir þessu umræðuefni. Þær yngri gátu glatt þær eldri með sögum af misheppnuðum stefnumótum og því hvernig samskiptum kynjana er háttað í dag. Þær eldri gátu frætt, og skemmt í leiðinni, þær yngri um hvernig kaupin voru gerð á eyrinni hér á árum áður.
Það var næðingur útifyrir en hlátrasköllin sem bárust út í næturkyrrðina um opinn glugga hlýjuðu og endurnærðu hjartarætur þessara kvenna.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli