Léku sér goðin, létu í minni poka
ljóssins öfl og Baldur féll í valinn.
Mig tekur engu að síður sárt til Loka
að sekur skuli hann aleinn vera talinn.
Það er sjaldnast einn sem öllu veldur
og oftast nær er fátt um skýra drætti
ekkert skýlaust um að ræða heldur
ótal flókna samverkandi þætti
sem vissulega voru hér til staðar
ef vilji er til að greina rætur meinsins:
Ég nefni ögrun Baldurs, hittni Haðar
heimsku Friggjar, æsku mistilteinsins ...
En öllu virðist svo sem alveg sama
fyrst sökudólgur fannst í þessu drama.
Þórarinn Eldjárn
2 ummæli:
Ertu að vísa í ástandið í dag? Hver er þá Loki? Davíð kannski?
Þessi sonnetta sem Þórarinn samdi fyrir nokkuð mörgum árum á vel við í dag. Ég læt ykkur eftir að dæma sjálfar hver er vinsælasti sökudólgurinn. Um stund var það Jón Ásgeir, einn daginn Fjármálaeftirlitið, oft er það Davíð, suma daga Geir ...
Skrifa ummæli