27 desember 2007

No speako dego!


Við fórum í góða ferð á Selfoss á Þorláksmessu, fjölskyldan. Mamma, ég og systkini mín og systurbörn. Það tilheyrir að fara í skötuát til ömmu og afa á þessum degi. Afi stendur úti og sýður skötuna í potti í ruslatunnunni til að draga úr lyktinni en samt angar húsið og maður sjálfur af skötufnyk það sem eftir lifir dags.

Þetta var góður dagur. Við komum á marga bæi og fórum í margar búðir - keyptum nokkrar jólagjafir og jólaföt, fórum með eitt eða tvö jólakort, fengum nóg kossa og góðra óska til að endast okkur árið, og jafnvel fram á næsta.

Árið já. Þegar líða fer að áramótum verð ég alltaf soldið melankónísk - það sækir á mig að endurskoða árið sem er að klárast. Hefur það verið gott? Gjöfult? Erfitt? Þroskandi? Viðburðaríkt? Ég get með góðri samvisku svarað öllum þessum spurningum játandi.

Þetta hefur verið frábært tímabil þó það hafi líka verið mjög erfitt á köflum. Benni litli frændi dó í upphafi árs. Ég hef tilhneigingu til að gleyma því að hann sé dáinn. Mér finnst eins og hann sé einhversstaðar í útlöndum að stökkva - kannski er himnaríki bara eins og útlönd.

Ég varð fullorðin á árinu. Nú er ég ung, glæsileg, þrítug kona. Afmælið mitt var æðislegt, gaman hvað margir komu til að fagna þessum tímamótum með mér. Ég fékk margar góðar gjafir, meðal þeirra flugmiða til New York.

Ég fór til Edinborgar á árinu. Ég held að ég fari alltaf þangað þegar ég fari til útlanda héðan í frá. Edinborg er svo falleg og heillandi eitthvað. Skotland er fallegt. Eini gallinn er að skoskir karlar eru hvorki mjög heillandi né fallegir - úpps - nema hönk ársins - hann er fallegur og heillandi, kynþokkafullur og dáleiðandi. Hver er hönk ársins? Gettu!

Best af öllu, eða skynsamast, var þó að hætta að kenna. Ég er ekki karakterinn í það lengur. Auðvitað sakna ég þess oft, það er eitthvað svo sérstakt við þetta starf, það er svo gefandi og fallegt. Nú er ég á "fullorðnum" vinnustað þar sem vinna margir strákar, sem er gott því þá get ég sett "full swing" í að það rætist sem fyrir mér liggur - að ég gangi út árið 2008. Amen.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir þessa skemmtilegu færslu Alla mín. Gott að þú ert glöð með árið hjá þér, það er svo mikilvægt að ganga sáttur fram á veginn. Vona að árið 2008 verði þér gjöfult á þeim sviðum sem þú óskar þess:)
jólakveðja, Ósk

Nafnlaus sagði...

Skemmtilegt ársyfirlit. Held að 2008 verði árið þitt.:)sem og okkar allra. Ingveldur

Nafnlaus sagði...

Hehehe...þetta var skemmtileg upptalning og margt í henni sem kallaði fram bros :)
kv. Jana

eddakamilla sagði...

Já Alla þú kannt að kalla fram bros með færslum þínum :o)Fæ vonandi að lesa meira eftir þig á árinu 2008 en 2007. Bíð enn spennt eftir bókinni "Daður" e. Öllu Cox.

Gleðilegt nýtt ár!
Kveðja
Edda Kamilla