Skemmtilegur pistill um íslenskt mál eftir Guðmund Steingrímsson sem birtist í Bakþönkum Fréttablaðsins á laugardaginn var. (Bið ykkur að afsaka ef innsláttarvillur finnast....pikkaði þetta inn í flýti)
Heyrðu
Ég hef tekið eftir því undanfarið að boðhátturinn af sögninni að heyra, sem sagt: heyrðu - hefur rutt sér töluvert til rúms í íslensku máli undanfarið. Hér er um að ræða, eftir því sem ég best veit, spánýtt tilfelli af ástarsambandi þjóðarinnar við einstakt orð. Mörg smáorð eru náttúrulega fyrir löngu orðin einkennandi fyrir Íslendinga, eins og ha, já og jæja, en nú sýnist mér að heyrðu sé að koma ansi sterkt inn.
Fólk er spurt einfaldrar spurningar eins og „Hvað heitir þú?“ Þá er svarað: „Heyrðu, ég heiti Jón.“ Úti í búð er viðskiptavinur spurður alvanalegrar spurningar eins og „Get ég aðstoðað þig?“ Og þá er svarað: „Heyrður, já, áttu smjör?“ Sífellt fleira fólk byrjar hversdagslegar setningar, símtöl og spurningar á heyrðu. Heyrðu er tískuorðið í dag.
Það er hreint ekki ætlun mín að halda því fram að þetta sé einhvers konar öfugþróun. Tungumálið er ekki að deyja. Ég brydda bara upp á þessu vegna þess að mér finnst þetta smá fyndið. Svona er þetta. Orð breiða úr sér og fara út um allt, á hina óvæntustu staði og eru allt í einu notuð í kringumstæðum þar sem þau voru aldrei notuð áður. Svoleiðis getur verið smá kómískt þegar maður spáir í það.
Hvers vegna vilja allt í einu svona margir segja heyrðu svona oft? Er þetta eitthvað einstaklega þægilegt orð? Þykir það vinalegt? Er það smart? Eins og áður segir er hér um boðhátt af sögninni „að heyra“ að ræða. Í framhaldi af því má spyrja af hverju boðhættir annarra svipaðra sagna hafa ekki náð svipaðri útbreiðslu, eins og til dæmis sjáðu. Það mætti ímynda sér að stytt útgáfa þeirrar sagnar gæti verið skemmtileg í daglegu tali: „Hvað heitir þú?“ „Sjá, ég heiti Jón.“
Full biblíulegt kannski. Stytt útgáfa af heyrðu gæti líka gengið: „Heyr, áttu smjör?“ Og síðan gæti stytt útgáfa af boðhættingum þegiðu verið mjög skemmtileg til tilbreytingar. Það yrði skáldlegt: „Þey, veistu um Gunnu?“ Og talandi um tilbreytingu. Auðvitað ber það vitni um ákveðið andleysi þjóðarinnar að það sé alltaf sama orðið sem nær svona útbreiðslu og engum skuli detta í hug að nota eitthvað annað í staðinn. Merking orðsins heyrðu er í raun hlustaðu á mig, eða hlýddu á orð mín, eða eitthvað slíkt. Eða bara: Nú skal segja. Hvers vegna ekki að nota það stundum í staðinn? Það yrði fyndið. „Hvað heitir þú?“ „Nú skal segja, ég heiti Jón.“
Ég ætla að sletta fram kenningu. Ég held að útbreiðsla orðsins heyrðu í upphafi setninga í daglegu tali sé ákveðin stæling á sambærilegum fyrirbrigðum í erlendum tungumálum. Á ensku segja töffarar til dæmis sýknt og heilagt jo þegar þeir hittast og þurfa að eiga í einföldum samskiptum. „Jo, what’s up?“ segja þeir. Ég held að Íslendingar séu meiri málverndunarsinnar en þeir vilja viðurkenna. Hér á landi segir enginn jo nema hann sé rugludallur. Íslendingar segja: Heyrðu.
Góða helgi kæru vinkonur og hafið það sem allra best :)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli