90 ára gömul framtíðarsýn
„Það er erfitt að spá – einkum um framtíðina“ var haft eftir Oscari Wilde einhverju sinni. Þótt vissulega hætti framtíðarspádómum til að eldast illa geta þeir verið bráðskemmtilegir aflestrar og gefið góða innsýn í hugarheim fólks fyrr á tímum. Fyrir 90 árum, nánar tiltekið fjórða og fimmta október 1916 birtist í Reykjavíkurblaðinu Höfuðstaðnum grein þar sem lýst var dásemdum hins rafvædda framtíðarheimilis. Þar átelur greinarhöfundur Reykvíkinga fyrir að hugsa of smátt og líta einungis á rafmagnið sem ljósgjafa.
Á framtíðarheimilinu yrði ekki þörf á vinnukonu, þar sem hinn þöguli þjónn rafmagnið leysti hana af hólmi. Rafmagnið myndi ekki segja upp vistinni, kvarta undan striti eða heimta frídaga og fríkvöld. Þvert á móti væri rafmagnið við hendina dag sem nótt og stuggaði á brott þjófum með hersingu af bjöllum.
Rafmagnsklukka sem stöðugt gengur rétt mun tryggja að á slaginu sex verði morgunbað til reiðu „annað hvert í baðklefanum eða þá í svefnherberginu“. Meðan húsmóðirin klæðir sig, sér rafmagnið um að kveikja undir katlinum í borðstofunni.
Ekki lét greinarhöfundur Höfuðstaðarins sér nægja að flytja baðkarið inn í svefnherbergi, heldur sá hann lítil not fyrir eldhúsið – nema fyrir stærri matseld. Þegar sótið og reykurinn væru fyrir bý, ættu eldhúsgögn og vaskur að geta verið stofustáss. Matarlyktin ætti ekki að þurfa að angra gesti, því matseldin færi fram í lokuðum skáp. Með því að elda í stofunni, gæfist húsmæðrum tími til að sinna prjóna- og saumaskap í makindum meðan beðið er eftir matnum og hlaup milli stofu og eldhúss yrðu úr sögunni.
Með rafmagni verður hreingerning leikur einn. Rafmagnsdælur munu sjúga ryk úr fötum, gólfdúkum og stoppuðum húsgögnum. Jafnvel sópurinn verður rafvæddur og lýsir höfundur þeirri útfærslu í smáatriðum: „...er til þess notaður sópur, holur að innan, með tveim handföngum að ofan, líkt og stýri á reiðhjóli. Þangað liggur þráður sem flytur rafmagnið í litla hreyfivél neðarlega á skaftinu. Húsmóðirin tekur svo í handföngin og setur vélina á stað og svo burstar sópurinn og sýgur alt rykið í sig. – Ekki ósvipað áhald er notað til gólfþvotta.“
Barnagæsla mun einfaldast til muna með kröftum rafmagnsins. „Vakni barnið og vilji fá pelann sinn, snýr móðirin tveim sveifum fast við rúmiðp, önnur kveykir á litlum rafmagnslampa, en önnur vermir pelann. ... T.d. getur lítill rafmagnsmótor vaggað barninu, rólað því fram og aftur á flugferð, eða sníð skínandi málmplötu eða mislitu gleri til að vekja eftirtekt barnsins. – Rafmagns-Fónograf má einnig nota til að syngja vögguvísu fyrir barnið, með rödd móðurinnar, en hún liggur sjálf í rúmi sínu á meðan og bæði hún og barnið sofna út frá söngnum.“
Enn eru ótaldar ýmsar hugmyndir greinarhöfundarins nafnlausa, s.s. uppþvottavélar, þurrk- og fægiskápar fyrir leiratu; kæliskápar undir matvæli og til ísgerðar; rafmagnssaumavélar og blástursvélar til að flýta fyrir að þvottur þorni á þurrkloftinu. Lokaorðin voru sömuleiðis einlæg og bjartsýn: „Vér lifum í þeirri trú, að rafmagnsöld sé í aðsigi hér á landi og flytji með sér þægindi og velmegun fyrir alla og þá verður gaman að lifa.“
Stefán Pálsson,Minjasafni Orkuveitunnar í Elliðaárdal.
http://www.or.is/Forsida/Frettastofan/Nanar/729
1 ummæli:
Þetta er ótrúlegt og margt af þessu notað í dag.
Skrifa ummæli